Fækka stoppistöðvum – Gríðarleg skerðing á þjónustu

Nýtt leiðakerfi fyrir landsbyggðarstrætó sem Vegagerðin hefur gefið út og tekur gildi 1. janúar 2026 var kynnt fyrir bæjarráði Reykjanesbæjar á fundi þess í gær.
Bæjarráð telur að gríðarleg skerðing verði á þjónustu við íbúa Reykjanesbæjar þann 1. janúar 2026 þegar stoppistöðvum mun fækka úr átta í tvær í sveitarfélaginu ef áætlanir Vegagerðarinnar ná fram að ganga. Var bæjarfulltrúum bent á að það væri þörf á að gera þessar breytingar þar sem illa gengur að halda tímaáætlun í akstri sökum þungrar umferðar á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarráð telur óásættanlegt að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem komu fram á fundum sveitarfélaga á Suðurnesjum með Vegagerðinni í aðdraganda þessara breytinga og skorar á Vegagerðina að endurskoða breytingu þeirra á leiðarkerfi leiðar 55 í samráði við sveitarfélagið, segir í fundargerð.