Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjóri rökstyður vanhæfi

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur lagt fram rökstuðning vegna vanfhæfis við aðkomu að undirbúningi fyrirhugaðs flutnings Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll. Frá þessu greinir hann í pistli á Facebook, sem sjá má í heild hér fyrir neðan.

Á bæjarstjórnarfundi þ. 2. apríl sl. lagði bæjarfulltrúi Umbótar, Margrét Þórarinsdóttir, fram bókun í tilefni þess að ég hafði lýst mig vanhæfan til frekari aðkomu að undirbúningi fyrirhugaðs flutnings Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll. Í bókuninni efast MÞ um að mér sé stætt á að lýsa yfir vanhæfi og fer fram á rökstuðning. Hann veitti ég á næsta bæjarstjórnarfundi, sem fram fór sl. þriðjudag 16. apríl, og er hann hér fyrir neðan. Er skemmst frá því að segja að Margrét brást vel við þessum rökstuðningi og tók hann góðan og gildan.


  1. Flutningur Bókasafns Reykjanesbæjar – svar við fyrirspurn (2022110463)
    Forseti gaf orðið laust. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri tók til máls og gaf svör við fyrirspurn sem Margrét Þórarinsdóttir bæjarfulltrúi Umbótar lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi 2. apríl 2024.

“Á síðasta fundi bæjarstjórnar þ. 2. apríl sl. lagði Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, fram bókun um skoðun sína á því að ég hafi lýst mig vanhæfan til frekari aðkomu að fyrirhuguðum flutningi bókasafnsins í Hljómahöll. Í bókuninni beindi hún m.a. til mín eftirfarandi spurningu:

Spurning Margrétar Þórarinsdóttur:

Hvernig rökstyður bæjarstjóri ákvörðun sína um að hann sé vanhæfur með tilliti til stjórnsýslulaga og sveitarstjórnarlaga?

Svar Kjartan Más Kjartanssonar:

Í almennri hæfisreglu sveitarstjórnarréttar samkvæmt 2. mgr. 20 gr. sveitarstjórnarlaga felst að starfsmanni sveitarfélags ber að víkja sæti við meðferð máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

Almennt þegar starfsmaður eða nefndarmaður telur huglæga viljaafstöðu sína til máls vera með þeim hætti að draga megi hæfi viðkomandi með réttu í efa verður almennt að leggja til grundvallar að slík huglæg afstaða sæti ekki endurskoðun annarra.

Þegar um slíkar matskenndar hæfisreglur er að ræða verður jafnframt að hafa í huga að tilgangur þeirra er að tryggja að ákvarðanir og ráðstafanir stjórnvalda séu þannig að fyrirbyggja að starfsmaður fjalli um mál þar sem með réttu megi efast um óhlutdrægni viðkomandi.

Í ljósi langra og ríkra tengsla undirritaðs og fjölskyldu hans við starfsemi tónlistarskólans, baráttu fyrir aðstöðu skólans og að lokum aðkomu að stofnun Rokksafns Íslands og stjórnarformennsku þegar safninu var komið á koppinn, var það mat undirritaðs að þau tengsl væru með þeim hætti að almennt mætti ætla að viljaafstaða mótaðist af því.

Með vísan til þess, vandaðra stjórnsýsluhátta og að síðustu þannig að enginn vafi væri til staðar um ákvarðanir og ráðstafanir Reykjanesbæjar í kjölfarið vegna þessa mikilvæga máls, taldi undirritaður að rétt væri að víkja sæti í málinu, með vísan til þeirra sjónarmiða sem liggja að baki matskenndri hæfisreglu 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga.“

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.