Nýjast á Local Suðurnes

Álag á frárennslislögnum – Bæta rennslisöryggi á álagstímum

Ástand fráveitu í Sandgerði og mögulegar aðgerðir til úrbóta voru ræddar á fundi bæjarráðs Suðurnesjabæjar á dögunum, en í rigningum undanfarið hefur borið á að lagnir hafi ekki undan.

Einar Friðrik Brynjarsson, deildarstjóri umhverfisdeildar sagði í svari við fyrirspurn að strax hafi verið brugðist við með hreinsunum og neyðardælingum, rennslishindranir hafi verið fjarlægðar með hreinsunum á lögnunum auk þess sem viðbragð hafi verið eflt með færanlegum búnaði þegar spár gera ráð fyrir mikilli úrkomu.

Núna vinnum við eftir samræmdri áætlun þar sem veikir hlutar kerfisins fá forgang, klárum endurbætur sem eru hafnar, bætum rennslisöryggi á álagspunktum og höldum áfram kerfisbundinni greiningu (m.a. myndatöku í lögnum) til að styðja ákvörðunartöku. Næstu vikur halda viðhald og forgangsverkefni áfram, segir í svari Einars Friðriks.