Tulipop leiksvæði opnar á KEF

Framkvæmdir við uppsetningu á nýju leiksvæði, sem er innblásið af undraveröld Tulipop og er sett upp með það í huga að gera flugvöllinn að skemmtilegri stað fyrir yngstu gestina, eru hafnar.

Leiksvæðið er staðsett við veitingasvæðið Aðalstræti þar sem gengið er inn í aðra hæð nýrrar austurálmu flugvallarins. Á sama svæði eru einnig gagnvirk leiktæki, svokallað iWall frá finnska fyrirtækinu CSE Entertainment.

Leiksvæðið er samstarfsverkefni Tulipop, hönnunarteymisins ÞYKJÓ og KRUMMA sem sérhæfir sig í hönnun, framleiðslu og sölu á leiktækjum og leikföngum fyrir börn. Ævintýraheimur Tulipop er landsmönnum vel kunnur en fyrirtækið var stofnað árið 2010 og er hugarfóstur hönnuðanna Signýjar Kolbeinsdóttur og Helgu Árnadóttur. Ævintýri Tulipop byggja á litríkum og líflegum töfraheimi þar sem skemmtilegar fígúrur lifa og hrærast. Stærsta verkefni Tulipop til þessa er framleiðsla 52 þátta teiknimyndaþáttaraðar sem hefur notið mikilla vinsælda.

Uppsetning leiksvæðisins tekur nokkra daga og stefnt er að því að það opni síðar í mánuðinum.