Nýjast á Local Suðurnes

Nýtt fjármagn tryggir hraðari uppbyggingu laxeldis Samherja á Reykjanesi

Samherji fiskeldi ehf. hefur aukið hlutafé vegna Eldisgarðs, nýrrar landeldisstöðvar fyrir lax á Reykjanesi, um 85 milljónir evra eða um 12 milljarða króna – í 210 milljónir evra úr 125 milljónum evra – vegna aukinnar eftirspurnar fjárfesta.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samherja, en þar segir að eiginfjárframlag hluthafa vegna fyrstu tveggja áfanga Eldisgarðs liggi nú fyrir sem gerir Samherja fiskeldi kleift að byggja landeldisstöðina hraðar en áður var fyrirhugað. Þannig getur félagið strax hafið undirbúning hönnunar og framkvæmda á öðrum áfanga stöðvarinnar, en framkvæmdir við fyrsta áfanga hófust í október síðastliðnum.

Hópur innlendra og erlendra fjárfesta leggur til hlutafjáraukninguna. Þar er um að ræða, auk Samherja hf., framtakssjóðinn AF3 slhf. sem er í rekstri Alfa Framtaks ehf., CCap sem er hollenskt fjárfestingarfélag í fjölskyldueigu, fjárfestingarfélagið Snæból ehf. og sex íslenska lífeyrissjóði: Almenna lífeyrissjóðinn, Festu lífeyrissjóð, Gildi lífeyrissjóð, Lífeyrissjóð verzlunarmanna, LSR og Stapa lífeyrissjóð.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Eldisgarður, sem hefur verið í þróun frá árinu 2020, verður staðsettur í auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun með aðgang að 100% endurnýjanlegri orku frá virkjuninni. Landeldisstöðin mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisbyggingu með þremur áframeldisstöðvum og sláturhúsi. Jarðvegsframkvæmdir við Eldisgarð hófust í október á síðasta ári og hafa staðið yfir síðan.

Um 100 manns koma til með að starfa í Eldisgarði og verður meirihluti þeirra þekkingarstörf. Þá mun stöðin njóta fulltingis þeirra 120 starfsmanna og sérfræðinga sem í dag starfa hjá Samherja fiskeldi.