Ný geit í kynnt til leiks

Grindvíkingar hafa eignast nýja geit. Geitin sem nú birtist er tákn samstöðu og minnir okkur á að við erum og verðum alltaf Grindvíkingar. Hún er hvort tveggja talsmaður og verndarvættur okkar, getur verið leiðsögumaður um sögu bæjarins eða stuðningsgeit númer eitt þegar íþróttafólkið okkar keppir, segir á vef sveitarfélagsins.
Geitin sækir innblástur sinn í bæjarmerki Grindavíkurbæjar sem er frá árinu 1986. Í merkinu sést hafið sem hefur mótað líf Grindvíkinga frá upphafi og geit sem á sér djúpar rætur í sögu og þjóðsögum svæðisins.
Af hverju geit í bæjarmerkinu?
Í Landnámu segir frá Molda-Gnúpi sem nam land í Grindavík. Sonur hans, Hafur-Björn, varð auðugur eftir að geithafur birtist í hjörð hans og síðan fylgdu landvættir honum til þings. Örnefni í nágrenni Grindavíkur, eins og Geitahlíð og Geithöfði, minna einnig á tengsl svæðisins við geitur.
Geitin er ekki eingöngu hluti af fortíð okkar. Hún er líka lifandi tákn um eiginleika sem við Grindvíkingar þekkjum vel. Geitur eru harðgerðar og aðlaga sig að erfiðum aðstæðum, en þær eru líka forvitnar og úrræðagóðar, óhræddar við að kanna nýjar leiðir. Þær finna jafnvægi á þröngum og grýttum stöðum og minna okkur þannig á mikilvægi þess að halda fótfestu þegar reynir á.
Geitur eru félagslyndar skepnur sem sýna ást og samkennd, og það gerir þær líka að frábærum talsmanni þegar ná þarf til barna. Geitin getur sagt sögu Grindvíkinga á einfaldan og skemmtilegan hátt, gert hana aðgengilega yngstu kynslóðinni og þannig hjálpað til við að halda samhug á milli kynslóða.

“Við erum Grindavík”
Ungmennaráði voru kynntar fyrstu teikningar af Geitinni í haustferð ráðsins til Grindavíkur í ágúst og var niðurstaða þeirra að Geitin væri „nett“. Þau ákváðu jafnframt að geitin fengi til að byrja með nafnið Geitin. Var því unnið áfram með þær tillögur sem ráðinu leist best á.
Ungmennaráði voru einnig kynntar nokkrar tillögur að slagorðum og var niðurstaða þeirra skýr. Nota ætti slagorðið Við erum Grindavík enda lýsi það best samfélaginu. Það undirstrikar styrk Grindvíkinga þegar við komum saman, hvort sem er á viðburðum, íþróttaleikjum eða þegar við miðlum sögu okkar áfram til yngri kynslóða. Við erum Grindavík er einfalt en sterkt. Það var einnig landsþekkt þegar borði með slagorðinu var hengdur upp í Smáranum, sem varð mikilvægur samkomustaður Grindvíkinga á erfiðum tímum. Þar varð það að tákni samstöðu, samkenndar og seiglu samfélagsins. Það áréttar að við erum öll Grindvíkingar, sama hvar við búum eða hvar við stöndum í lífinu.
Geitin er eign allra Grindvíkinga
Hönnun var í höndum M74 Studio, Guðmundar Bernharð og Viktoríu Bazukina, grafískum hönnuðum, en Guðmundur Bernharð sér um markaðsefni Grindavíkurbæjar.
Þó verkið sé unnið af Grindavíkurbæ og UMFG er Geitin eign allra Grindvíkinga. Hún tekur ekki þátt í þrætum, heldur á að sameina okkur og minna á að við stöndum saman sem Grindvíkingar sama hvar við erum.