Náðu glæsilegum árangri á alþjóðlegum mótum

Níu keppendur úr Taekwondo deild Keflavíkur tóku þátt í tveimur alþjóðlegum mótum í Lettlandi á dögunum og unnu þar glæsileg verðlaun.
Fyrst var keppt á Evrópumóti Smáþjóða þar sem tíu þjóðir áttu þátttökurétt og skráðir voru tæplega 200 keppendur. Þar unnu þau Amir Maron Ninir og Heiða Dís Helgadóttir gullverðlaun, Þorsteinn Helgi Atlason hlaut silfur en Oliwka Waszkiewicz, Julia Marta Bator, Mikael Snær Pétursson, Ragnar Zihan Liu og Fjóla Sif Farestveit unnu öll til bronsverðlauna.
Tveimur dögum síðar keppti hópurinn á Riga Open, fjölmenntu alþjóðlegu stigamóti þar sem allar þjóðir geta tekið þátt. Þar voru um 500 keppendur skráðir til leiks. Amir Maron stóð þar aftur uppi sem sigurvegari eftir frábæra frammistöðu gegn Evrópumeistara ungmenna frá fyrra ári. Einnig vann Viktor Berg Stefánsson bronsverðlaun.