Nýjast á Local Suðurnes

Lagði fram harðorða bókun vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar við Víkingaheima

Minnisblað vegna erindis Funabergs fasteignafélags ehf. varðandi samstarf um uppbyggingu við Víkingaheima var lagt fram á funi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar á dögunum, eftir að bæjarráð hafði vísað skipulagshluta málsins til ráðsins til umsagnar.

Innihald minnisblaðsins kemur ekki fram í fundargerð ráðsins, en fulltrúi Umbótar í ráðinu, Gunnar Felix Rúnarsson, lagði fram eftirfarandi bókun:

Umbót ítrekar fyrri afstöðu sína frá 357. fundi ráðsins þann 7. febrúar 2025, þar sem beiðni Funabergs fasteignafélags um lóðarstækkun við Víkingaheima var hafnað á grundvelli þess að svæðið er skilgreint sem opið svæði samkvæmt aðalskipulagi bæjarins.

Við teljum óásættanlegt að sama erindi sé nú lagt fyrir ráðið á ný, eftir að því var hafnað, án þess að forsendur hafi breyst eða ný gögn bæst við. Málið hefur þegar verið afgreitt með skýrri niðurstöðu og ekki er tilefni til endurtekinnar meðferðar. Að reyna að koma málinu í gegn með því að fara í gegnum bæjarráð er hvorki gagnsætt né í samræmi við vandaða stjórnsýslu og grefur undan trúverðugleika ráðsins, segir í bókuninni.

Þá ítrekar Umbót jafnframt bókun sína frá fundi bæjarráðs þann 7. ágúst 2025, þar sem lögð var áhersla á að ráðstöfun á einu verðmætasta byggingarsvæði sveitarfélagsins verði aðeins framkvæmd með opnu og gagnsæju útboðsferli sem tryggir jafnræði, faglega meðferð og þjónar almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum eins verktaka.
Umbót hafnar því alfarið að fallist verði á þessa tillögu.

Erindinu var að lokum frestað.