Nýjast á Local Suðurnes

Höfða til erlendra verkamanna í stjórnarkjöri

Forsvarsmenn framboðs B lista til stjórnarkjörs í Verslunarmannafélagi Suðurnesja (VS) höfða til erlendra verkamanna í félaginu í aðsendri grein sem birtist á vef stærsta héraðsfréttamiðils landsins. Greinin er skrifuð á pólsku, en um 14% félagsmanna VS eru af erlendu bergi brotnir, þar af um 12% pólskumælandi. Framboð til stjórnar VS hefur verið umdeilt, en tvö framboð sendu inn lista og var annað þeirra ógilt að mati kjörstjórnar.

Framboðsfrestur vegna stjórnarkjörs VS rann út fimmtudaginn 22. febrúar síðastliðinn og bárust tveir listar; A listi stjórnar og trúnaðarráðs VS og B listi, en B listi uppfyllti ekki, að mati kjörstjórnar, þau skilyrði sem sett eru fyrir framboði og úrskurðaði kjörstjórn að einungis einn listi væri löglega fram borinn A listi, og þeir sem á þeim lista voru rétt kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir félagið.

Þessu vildu forsvarsmenn B lista ekki una og fóru fram á að frestur yrði gefinn til að koma að framboðslista á ný. Þeirri beiðni hafnaði kjörstjórn þar sem ekki hafði verið óskað eftir neinum upplýsingum eða leiðbeiningum frá skrifstofu félagsins um hvaða kröfur þyrfti að uppfylla til að framboð teldist lögmætt.

Í kjölfar höfnunnar kjörstjórnar óskaði B listi eftir því að kallaður yrði til félagsfundur í VS, en samkvæmt reglum félagsins þarf að minnsta kosti undirskriftir 50 fullgildra félagsmanna til að óska eftir fundi.  Beiðni B lista fylgdi listi 52ja nafna en við skoðun voru einungis 48 þeirra fullgildir félagsmenn. Beiðnin uppfyllti því ekki skilyrði laga félagsins og var hafnað.

Málinu er þó hvergi nærri lokið, eftir því sem Suðurnes.net kemst næst, og vinna forsvarsmenn B lista enn að því að kalla saman félagsfund í félaginu og að fá þannig úrskurði kjörnefnadar hnekkt.