Hefja flug til Montreal

Kanadíska flugfélagið Air
Transat hefur ákveðið að hefja flug til Íslands. Flogið verður á milli Montreal í Kanada og Keflavíkurflugvallar tvisvar í viku, mánudaga og miðvikudaga, frá 17. júní á næsta ári til 28. september. Þetta er
í fyrsta sinn sem Air Transat flýgur til Íslands.

Air Transat var stofnað árið 1986 og verður því fjörutíu ára á næsta ári. Það flýgur til um sextíu áfangastaða í tuttugu og fimm löndum. Höfuðstöðvar félagsins eru í Montreal í Québec-fylki í Kanada.

„Það er okkur mikið gleðiefni að bjóða Air Transat velkomið í hóp flugfélaga á Keflavíkurflugvelli,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og markaðsmála á Keflavíkurflugvelli, í tilkynningu. „Með þessari nýju viðbót aukum við enn við framboð af flugrekendum
hér á landi. Flugleið þeirra til Montreal styrkir tengsl Íslands og Kanada og endurspeglar bæði vaxandi aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar og styrk Keflavíkurflugvallar.“