Nýjast á Local Suðurnes

Fjör á setningarathöfn Ljósanætur

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, var sett í dag í Skrúðgarðinum í Keflavík. Börn úr leik- og grunnskólum bæjarins tóku þátt í athöfninni og mátti skynja eftirvæntingu í loftinu þegar fulltrúar Ungmennaráðs drógu risastóran, marglitan Ljósanæturfána að húni á eina hæstu flaggstöng landsins.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, sem setti hátíðina, sagði liti fánans endurspegla margbreytileikann og kraftinn sem býr í samfélaginu.

Hátíðin stendur yfir dagana 4.–7. september og er nú haldin í 24. sinn. Dagskráin er einstaklega fjölbreytt og býður upp á hátt í tvö hundruð fjölbreytta viðburði víðs vegar um bæinn m.a. listsýningar, tónleika og barnadagskrá. Árgangagangan á laugardag, stórtónleikar á útisviði, lýsing Bergsins og flugeldasýningin eru meðal hápunkta helgarinnar.

Leiðarstef Ljósanætur 2025 er „Saman með ljós í hjarta“ – boðskapur sem hvetur til jákvæðni, virðingar og samveru. Íbúar og gestir eru hvattir til að taka þátt, njóta alls þess sem dagskráin býður upp á og skapa góðar minningar með sínum nánustu.

Fjölskyldur geta nýtt sér ókeypis Ljósanæturstrætó yfir helgina og á hátíðarsvæðinu verða tívolítæki, hoppukastalar, matarvagnar, ókeypis barnadagskrá og fjölbreytt afþreying.

Ljósanótt væri ekki möguleg án öflugra samstarfsaðila. Ljósberar hátíðarinnar í ár eru Landsbankinn, KEF – Keflavíkurflugvöllur, Skólamatur, Bus4U, Blue Car Rental, Nettó og GTS, sem ásamt fjölda annarra stuðningsaðila gera samfélaginu kleift að njóta þessarar einstöku hátíðar.