Ræddi við þjálfarann og sá rautt skömmu síðar

Oumar Diouck, leikmaður Njarðvíkur fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í blálokin í fyrri leik undanúrslita um sæti í Bestu-deildinni í kvöld.

Diouck var þegar kominn í bann fyrir úrslitaleik umspilsins með því að fá fyrra gula spjaldið. Er það vegna uppsafnaðra spjalda. En þar sem hann fékk rautt í leiknum fer hann í bann í næsta leik, seinni leiknum gegn Keflavík og nær úrslitaleiknum ef Njarðvík kemst þangað. Glöggir áhorfendur tóku eftir því að Diouck ræddi við þjálfara Njarðvíkur rétt fyrir leikslok, skömmu áður en seinna gula spjaldið fór á loft fyrir litlar sakir, en hann var spjaldaður fyrir að tefja leikinn.

Er þetta vegna tímasetningar á fundum Aganefndar KSÍ. Kemur nefndin saman á þriðjudögum og bönn vegna uppsafnaðra spjalda taka ekki gildi fyrr en að því loknu. Þýðir það að Diouck hefði verið úrskuraður í leikbann eftir seinni leikinn og fyrir úrslitaleikinn, fari Njarðvík þangað, ef hann hefði aðeins fengið gult spjald í kvöld.