Líkur á gosi aukast

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og haldist sá hraði kvikusöfnunar stöðugur fara líkur á nýjum atburði að aukast í seinni hluta september.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni, en þar segir enn fremur að hið nýja hættumat gildi til 16. september og að áfram sé talin nokkur hætta á og við nýju hraunbreiðuna.
Þá kemur fram að mikilvægt sé þó að hafa í huga að það magn kviku sem hlaupið hefur úr Svarsengi í eldgosunum á Sundhnúksgígaröðinni frá því í mars 2024 sé nokkuð breytilegt, eða frá 12 milljón rúmmetrum upp í 31 milljón rúmmetra. Það sé því óvarlegt að gera ráð fyrir því að næsti atburður hagi sér eins og sá síðasti.
Gera þarf ráð fyrir því að síðasti atburður gæti hafa verið óvenjulegur í þessari röð eldgosa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni hvað varðar það magn kviku sem þurfti að safnast saman undir Svartsengi til að koma af stað eldgosi. Reynslan af síðustu atburðum hefur einnig sýnt að hraði söfnunarinnar þarf ekki að breytast mikið svo að tímasetning á næsta mögulega eldgosi breytist um nokkrar vikur. Óvissan í tímasetningu á næsta atburði er því töluverð og núverandi kvikusöfnunartímabil getur dregist á langinn, segir í tilkynningunni.