Nýjast á Local Suðurnes

Bláa lónið byggir formúlubraut – Mika Häkk­in­en kynnir verkefnið í dag

Bláa lónið hefur tryggt sér réttinn á Formula1 Iceland keppninni og mun hefja framkvæmdir við byggingu formúlubrautar við gatnamót Grindavíkurvegar í sumar. Áformin verða kynnt almenningi í dag klukkan 16, á byggingareit fyrirhugaðs hótels fyrirtækisins við Grindavíkurveg og mun fyrrverandi heimsmeistari í íþróttinni, Mika Häkk­in­en, vera á meðal þeirra sem kynna verkefnið, auk forráðamanna Formúlu1-keppninnar.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir verkefnið vera kostnaðarsamt, en þó arðbært fyrir fyrirtækið, til lengri tíma litið, þar sem um vel á annað hundrað þúsund áhorfendur mæti að jafnaði á hverja keppni og gert sé ráð fyrir að flestir leggi leið sína í lónið, auk þess sem þetta tryggi góða nýtingu á fyrirhuguðu hóteli fyrirtækisins við Grindavíkurafleggjara.

“Þetta er langtíma verkefni, við höfum verið að stækka lónið og erum að fara að byggja stórt hótel á þessu svæði. Þetta er einn liður í því að tryggja að það verði alltaf fullt hjá okkur, en auk Formúlunnar vera allskyns bílaíþróttakeppnir í gangi, nær allan ársins hring.” Sagði Grímur í stuttu spjalli við Suðurnes.net.

Eftir kynninguna stendur almenningi svo til boða að skella sér í lónið, sér að kostnaðarlausu og þiggja léttar veitingar, auk þess sem hægt verður að spyrja heimsmeistarann fyrrverandi út í verkefnið í eigin persónu.

 

Uppfært 1. apríl kl. 23.59: Þessi frétt á sér enga stoð í raunveruleikanum og er aprílgabb Suðurnes.net þetta árið.