Réttað í Þórkötlustaðarétt á sunnudag

Réttað verður í Þórkötlustaðarétt í Grindavík sunnudaginn 21. september kl. 14:00. Að vanda er búist við fjölmenni og eru allir velkomnir að koma og fylgjast með.
Að sögn Ómars Davíðs Ólafssonar, formanns fjallskilanefndar í samtali við vef Grindavíkurbæjar, sækja grindvískir bændur um 900 fjár af fjalli að þessu sinni, sem er heldur færra en undanfarin ár þegar um 1.100–1.200 fjár hafa verið í réttunum. „Það er alltaf gaman að sjá sem flesta, og ég hvet fólk jafnframt til að kíkja við í bakaríinu eða á veitingastöðunum í Grindavík í leiðinni,“ segir Ómar.
Veðurspáin fyrir sunnudaginn er góð og því má gera ráð fyrir skemmtilegri stemningu í réttunum.