Nýir eigendur stefna á aukna framleiðslugetu og sókn á erlenda markaði

Nýir hluthafar Algalíf, undir forystu framtakssjóðsins ALDIR I slhf., sem keyptu um helming hlutafjár félagsins á dögunum, hafa lýst því yfir að þeir hyggist halda áfram uppbyggingu félagsins með áherslu á aukna framleiðslugetu, frekari vöruþróun og aukna sókn á erlenda markaði. Framleiðsla fyrirtækisins fer fram á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Félagið var stofnað árið 2012 og starfa þar nú um 80 manns, flestir í starfsstöð fyrirtæksins á Ásbrú, þar sem miklar framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarin misseri við stækkun á verksmiðjunni. Gangi fyrirætlanir eftir mun framleiðslan þrefaldast frá því sem verið hefur.
Í tilkynningu kemur fram að norðmennirnir Kenneth G. Bern og Andres K. Flaaten muni áfram eiga hinn helming hlutafjárins. Stjórnendateymi félagsins verður óbreytt undir forystu forstjórans Orra Björnssonar.