Leggja áherslu á að skapa öruggt og jákvætt umhverfi

Undirbúningur fyrir Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, er á lokametrunum. Í morgun hélt sérstök öryggisnefnd sinn síðasta fund fyrir hátíðina, en þar eiga sæti fulltrúar Reykjanesbæjar, lögreglu, brunavarna, björgunar- og slysavarnarsveita, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og fleiri hagsmunaaðila. Þar var farið yfir helstu atriði og stillt saman strengi með það að markmiði að tryggja öryggi og jákvæða upplifun allra gesta.
Forvarnir hafa verið í brennidepli í aðdraganda hátíðarinnar. Nemendur í efstu bekkjum grunnskólanna og nýnemar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja fengu fræðslu frá fulltrúum Flotans, flakkandi félagsmiðstöð og samfélagslögreglu um mikilvægi þess að standa saman, hvert leita má aðstoðar og hvaða úrræði eru í boði.
Jafnframt hefur verið unnið markvisst að því að efla viðbúnað og samhæfingu allra sem koma að öryggismálum. Flotinn verður á vaktinni bæði föstudag og laugardag ásamt lögreglu og viðbragðsaðilum auk liðsauka frá forvarnaraðilum í nágrannasveitarfélögum, meðal annars Suðurnesjabæ, Vogum, Mosfellsbæ, Kópavogi og Reykjavík.
Með þessum aðgerðum er lögð sérstök áhersla á að skapa öruggt og jákvætt umhverfi fyrir börn og ungmenni og um leið fyrir alla sem njóta hátíðarinnar.