Fordæmir ákvörðun Kadeco – “kominn tími til að segja hlutina eins og þeir eru”

Bæjarfulltrúi Umbótar í Reykjanesbæ er síður en svo ánægð með þá ákvörðun Kadeco að fella ekki niður byggingaréttargjöld vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar Brynju leigufélags við Grænásbraut í Ásbrúarhverfi í Reykjanesbæ, en til stóð tað byggja sjö íbúða raðhús sem úthluta átti til íbúa með fatlanir.

Margrét Þórarinsdóttir, fulltrúi Umbótar, skrifaði harðorða bókun vegna málsins á fundi bæjarstjórnar í gær þar sem hún fordæmir ákvörðunina og segir að svo virðist sem Kadeco sé fyrst og fremst sækjast eftir tekjum.

Bókunin í heild:

„Við í Umbót fordæmum ákvörðun Kadeco um að fella ekki niður byggingarréttargjöld vegna uppbyggingar Brynju leigufélags á Ásbrú. Hér var um að ræða uppbyggingu á sjö íbúðum fyrir fatlað fólk, hóp sem býr nú þegar við mikinn hússnæðisskort. Að hafna slíku verkefni á grundvelli tekjuöflunar er einfaldlega ósanngjarnt og óásættanlegt.

Reykjanesbær hefur árum saman borið alla kostnaðarliði við þjónustu innviða á Ásbrú á meðan Kadeco virðist fyrst og fremst sækjast eftir tekjum. Slík vinnubrögð ganga ekki lengur upp.

Það er kominn tími til að segja hlutina eins og þeir eru. Ef ríkið og Kadeco ætla að stjórna svæðinu með þessum hætti þá er eðlilegt að þau taki einfaldlega yfir alla ábyrgð og reki þar sjálfstætt sveitarfélag. Reykjanesbær getur ekki borið ábyrgð á öllum kostnaði á sama tíma og aðrir hirða tekjurnar. Umbót leggur til að bæjarfélagið einblíni hér eftir á uppbyggingu á þeim svæðum sem það á sjálft í stað þess að una lengur við ósanngjarna og skaðlega aðkomu Kadeco að málefnum Ásbrúar.“

Bæjarfulltrúi Umbótar Margrét Þórarinsdóttir.