Skært ljósaskilti sett upp án tilskilinna leyfa

Nýtt ljósaskilti Atlantsolíu við Njarðarbraut, sem hefur pirrandi áhrif íbúa í nálægum húsum, samkvæmt umræðum í ibuahópnum Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, virðist hafa verið sett upp og í gang áður en öll leyfi voru til staðar.
Nokkur fjöldi íbúa hefur tjáð sig við færsluna og eru nær allir sammála um að birtustig skiltisins sé töluvert of hátt. Erla Bjarný Gunnarsdóttir, lögfræðingur umhverfissviðs Reykjanesbæjar er á meðal þeirra sem ritar ummæli við færsluna og þar kemur fram að birtustig skiltisins hafi verið lækkað og að leyfismál séu í ferli.
Búið er að lækka birtuna á skiltinu niður í lágmarks birtu og leyfismál eru í ferli. Svona fer í grenndarkynningu og þá gefst tækifæri á að koma sínum skoðunum á framfæri. Vona að þetta sé til bóta fyrir íbúa, segir Erla Bjarný í ummælum sínum.
Mynd: Skjáskot / Facebook