Hækka varnargarða við Grindavík

Dómsmálaráðherra hefur samþykkt tillögu ríkislögreglustjóra um viðbætur við varnargarða norðan Grindavíkur. Með ákvörðuninni verður varnargarðurinn hækkaður um tvo til þrjá metra á um 450 metra kafla til að tryggja virkni hans og auka vernd bæjarins gagnvart mögulegu hraunflæði.

„Það er skýrt markmið stjórnvalda að tryggja öryggi íbúa og innviði. Við höfum séð að varnargarðarnir hafa reynst vel. Með þessari ákvörðun tryggjum við áframhaldandi vörn og öryggi á svæðinu,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.

Vinna við framkvæmdina er hafin og áætlaður kostnaður er um 80–120 milljónir króna.

Mynd tekin af vef Stjórnarráðsins: Mynd Vilhelm Gunnarsson.