Nýjast á Local Suðurnes

Yfirlýsing frá United Silicon: Fullyrðingar Stundarinnar tilhæfulausar með öllu

Stjórnendur United Silicon í Helguvík segja í yfirlýsingu að myndband, sem birt sé á vefmiðlinum Stundinni og sýnir losun kísilryks út í andrúmsloftið, sé frá því í byrjun desember og sýni atvik sem varð þegar starfmenn frá erlendum framleiðanda búnaðar sem notaður er í kísilverinu voru að glíma við stíflað síló. Í yfirlýsingunni segir einnig að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki vitað atvikinu.

Þá segir í yfirlýsingunni að fullyrðingar Stundarinnar um að undanfarið hafi „hættuleg eiturefni“ verið losuð út í andrúmsloftið úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar í skjóli nætur séu tilhæfulausar með öllu.

Yfirlýsingin frá United Silicon í heild sinni:

United Silicon telur óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við umfjöllun á vefnum Stundin.is í morgun. Þar er birt myndband sem sagt er að sýni útblástur á kísilryki í verksmiðjunni í gær.  Þetta er ekki rétt heldur er um að ræða gamalt myndband sem tekið var í byrjun desember á síðasta ári. Þetta atvik átti sér stað þegar starfsmenn framleiðenda erlends búnaðar voru að glíma við stíflað síló sem geymir kísilryk fyrir pökkun og sölu.  Þá voru gerð þau mistök að nota blásara til að losa stífluna án þess að haft væri samband við stjórnendur United Silicon áður. Ekkert slíkt atvik átti sér stað í gær enda var um einstakt atvik að ræða og sem er alls ekki hluti af starfsemi fyrirtækisins. Kísilryk er verðmæt afurð og mikilvæg söluvara United Silicon sem safnað er í reykhreinsivirki, pakkað í sekki og selt meðal annars til sementsvinnslu erlendis.

Í frétt Stundarinnar var einnig fjallað um atvik sem varð í verksmiðjunni í gær eftir að starfsemi hennar hafði verið stöðvuð vegna stíflaðrar viftu í reykhreinsivirki. Þá misstu starfsmenn kísilryk í gólfið þegar unnið var að hreinsun sem skýrir það ryk sem þá þyrlaðist upp.

Rétt er að taka fram að kísilryk er ekki eiturefni og er skaðlaust heilsu fólks. Atvikið var tilkynnt Umhverfisstofnun og í framhaldinu verður vinnuferlum við hreinsun búnaðar í verksmiðjunni breytt til að koma í veg fyrir að slík atvik endurtaki sig.

Fullyrðingar Stundarinnar um að undanfarið hafi „hættuleg eiturefni“ verið losuð út í andrúmsloftið úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar í skjóli nætur eru tilhæfulausar með öllu og ekki ljóst hvaða tilgangi það þjónar að halda slíkum ósannindum fram.

Rétt er að benda á að United SIlicon er með 3 mengunarmælistöðvar, staðsettar samkvæmt ábendingum Umhverfisstofnunar og eru mælingar þeirra allar birtar á vefsíðunni andvari.is.  Þessar mælingar sýna skýrt, að frá upphafi framleiðslu í nóvember, hefur mengun aldrei farið upp fyrir lögsett viðmiðunarmörk.