Nýjast á Local Suðurnes

Vilja gera grindvíska togara umhverfisvænni með nýrri tækni

Sigurvegarar Hnakkaþons, þau Guðjón Smári Guðmundsson, Ingi Svavarsson, Hjálmar Óskarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir og Hrönn Vilhjálmsdóttir hafa sett fram hugmyndir um hvernig gera má sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn hf. í Grindavík að grænna fyrirtæki á grundvelli Parísarráðstefnunnar um loftslagsmál, þar sem teknar voru ákvarðanir um skref til lækkunar á losun gróðurhúsalofttegunda.

Hnakkaþon er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarúrvegi sem gerir nemendum HR kleift að taka þátt í samkeppni um lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi.

Verkefni fimmmenninganna snýr að því að Þorbjörn hf. geti aukið rafmagnsnotkun á línubátum félagsins og togara, bæði á veiðum og við bryggju með því að nota rafmagn úr landi í stað ljósavéla. Að mati hópsins mun kostnaður við verkefnið, þ.e.a.s að koma upp þar til gerðum búnaði um borð í togara greiðast upp á hálfu öðru ári. Ávinningurinn er því bæði á hinu umhverfislega sviði og hinu efnahagslega.

Verðlaunin í Hnakkaþoni Há­skól­ans í Reykja­vík og Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi eru ekki af verri endanum, en sigurvegararnir halda til Bost­on á stærstu sjáv­ar­út­vegs­sýn­ingu heims í mars, í boði fyrrnefndra aðila.