Nýjast á Local Suðurnes

Velta á fasteignamarkaði þrefaldast á milli ára – 118 samningum þinglýst í júní

Innri - Njarðvík

118 kaupsamningum um fasteignir var þinglýst á Reykjanesi í júní. Þar af voru 48 samningar um eignir í fjölbýli, 60 samningar um eignir í sérbýli og 10 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 3.554 milljónir króna og meðalupphæð á samning 30,1 milljón króna. Veltan á Reykjanesi í júní í fyrra var 1.188 milljónir króna, veltan hefur því þrefaldast á milli ára.

Af þessum 118 voru 82 samningar um eignir í Reykjanesbæ. Þar af voru 45 samningar um eignir í fjölbýli, 28 samningar um eignir í sérbýli og 9 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 2.716 milljónir króna og meðalupphæð á samning 33,1 milljón króna.

Til samanburðar var á sama tímabili 105 samningum þinglýst á Norðurlandi, þar af voru 52 samningar um eignir í fjölbýli, 35 samningar um eignir í sérbýli og 18 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 2.994 milljónir króna og meðalupphæð á samning 28,5 milljónir króna. Af þessum 105 voru 68 samningar um eignir á Akureyri. Þar af voru 45 samningar um eignir í fjölbýli, 16 samningar um eignir í sérbýli og 7 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 2.389 milljónir króna og meðalupphæð á samning 35,1 milljón króna.

Vakin er athygli á að meðalupphæð kaupsamnings er ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar, misgamlar o.s.frv.