Nýjast á Local Suðurnes

Skúli enn umsvifamikill við Keflavíkurflugvöll

Skúli Mogensen, fjárfestir og fyrrverandi eigandi og forstjóri WOW-air, virðist enn vera með töluverð umsvif í næsta nágrenni við Keflavíkurflugvöll. Fjárfestirinn öflugi rekur um 120 herbergja hótel, Base Hotel, á Ásbrú auk þess að hafa nokkrar íbúðir í útleigu í næsta nágrenni við hótelið.

Skúli virðist þannig í gegnum félög sin, Títan Fjárfestingafélag og einkahlutafélagið TF-KEF, hafa haldið umtalsverðum eignum á Suðurnesjum eftir gjaldþrot lággjaldaflugfélagsins, þrátt fyrir að eftir honum hafi verið haft að hann hafi lagt aleiguna í þann rekstur. Skúli tapaði að eigin sögn um 8 millörðum króna á falli flugfélagsins.

Mikið var lagt upp úr því að gera Base Hotel hið glæsilegasta og er þar að finna mikið magn flottra listaverka

Arionbanki, viðskiptabanki hins gjaldþrota flugfélags, þinglýsti um milljarðs króna tryggingabréfum á fasteignir í eigu Skúla rétt fyrir gjaldþrot WOW-air, en tryggingabréfunum var meðal annars þinglýst á hótelið umrædda. Fjölmiðlafulltrúi Arionbanka sagðist í svari við fyrirspurn ekki geta tjáð sig um málefni einstakra viðskiptavina og gat því hvorki játað því né neitað hvort bankinn hafi leyst eignirnar til sín eða hvort skuldir fyrirtækjanna hafi verið gerðar upp eða þær afskrifaðar. Opinber gögn sýna hins vegar að Skúli er enn skráður stjórnarformaður beggja fyrirtækja.

Í umfjöllun Stundarinnar, frá því fyrir fall WOW-air kemur fram að auk hótelsins var tryggingabréfunum þinglýst á heimili Skúla og fasteignir hans í Hvalfirði, sem hann virðist einnig enn hafa full umráð yfir.
Base Hotel er eitt flottasta hótelið á Suðurnesjum en samkvæmt vefsíðu þess er þar að finna afar glæsilega listmuni auk þess sem mikið var lagt í að gera hótelið hið glæsilegasta jafnt að utan sem innan.
Þess má geta að Skúli Mogensen svaraði ekki fyrirspurnum.