Nýjast á Local Suðurnes

Sbarro valið til veitingasölu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í sumar

Fjórtán aðilar sendu inn umsókn um að reka veitingasölu í rými sem er á biðsvæði fyrir skiptifarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fengu fimm þeirra tækifæri til að skila inn frekari gögnum fyrir valnefnd sem í sátu einn fulltrúi frá Isavia og tveir utanaðkomandi aðilar. Eftir nánari kynningu á fyrirkomulagi bárust upplýsingar frá tveimur áhugasömum aðilum.

Veitingastaðurinn Sbarro, sem meðal annars hefur útibú í Kringlunni og Smáralind, hefur verið valinn í tímabundið veitingarými sem sett verður upp í suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í sumar. Þetta er í fyrsta sinn sem Isavia auglýsir eftir aðilum í tímabundið rými en fyrirkomulagið er þekkt á flugvöllum erlendis.

Skiptifarþegum hefur farið fjölgandi undanfarin ár og eru þarfir þeirra til afgreiðsluhraða á veitingum oft aðrar en þeirra sem hafa viðdvöl í landinu. Skiptifarþegar dvelja að meðaltali í um 60 mínútur í flugstöðinni og var því lögð rík áhersla á afgreiðsluhraða og gæði í vali á veitingaaðila. Í þjónustukönnunum Isavia hefur komið fram að skiptifarþegum hefur þótt vanta upp á úrval veitingastaða í suðurbyggingu og er þetta svar Isavia við þeirri eftirspurn.

Útleigutímabil er frá 1. júní 2017 til 20. nóvember 2017 og er stefnt að opnun veitingasölunnar um miðjan júní. Isavia stefnir að því að leigja tímabundin rými út yfir vetrar- og sumartímabil og er stefnt að því að bjóða einnig út verslunarrými yfir vetrartímann.