Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesið mun koma út á ný þegar samþykki samkeppniseftirlits liggur fyrir

Vefpressan, fjölmiðlafyrirtæki Björns Inga Hrafnssonar, bíður þess enn að Samkeppniseftirlitið veiti samþykki sitt fyrir kaupum þess á tólf blöðum sem Fótspor ehf. gaf áður út. Björn Ingi segir líklegt að ekki sé langt í að leyfi fáist en þangað til sé bara hægt að bíða.

„Þetta er ferli sem lög­in segja til um, við meg­um ekk­ert gera fyrr en græna ljósið er fengið. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að það ger­ist á næst­unni,“ seg­ir Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi og stjórnarformaður Vefpressunnar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að þegar leyfi Samkeppniseftirlitsins liggi fyrir verði aftur hafin útgáfa á blöðunum. „Það verður ekk­ert dregið úr held­ur bara bætt í,“ seg­ir Björn Ingi og bætir því við að ný blöð muni líta dagsins ljós.

Á meðal þeirra blaða sem Fóstpor gaf út fyrir kaup Vefpressunnar var blaðið Reykjanes sem gefið var út hálfsmánaðarlega og dreift ókeypis til íbúa á Suðurnesjum. Sigurður Jónsson ritstjóri Reykjaness hafði ekki enn heyrt í forsvarsmönnum Vefpressunnar þegar Local Suðurnes náði tali af honum í gær og sagðist því ekkert vita um áframhaldandi útgáfu blaðsins.