Nýjast á Local Suðurnes

Nauðsynlegt að rífa hluta Hótel Bergs vegna myglu – Bæta við 20 herbergjum

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við Hótel Berg í Reykjanesbæ síðan í sumar, en unnið er að því að stækka hótelið, sem er í eigu fjölskyldu Hreiðars Márs Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings. Í tenglsum við stækkunina hafa tvö hús sem stóðu við Bakkaveg rifin, hluti húss númer 17 og hús númer 19. Til stendur að bæta 20 herbergjum við hótelið, en rekstur þess hefur gengið vel frá upphafi.

Hreiðar Már segir í athugasemd við frétt vefútgáfu Stundarinnar af málinu að hús númer 19 hafi verið rifið af fyrri eigendum Hótel Bergs, en nauðsynlegt hafi verið að rífa hús númer 17 þar sem mygla hafi fundist í húsnæðinu þegar framkvæmdir hófust, auk þess sem húsið hefði ekki þolað byggingu auka hæðar.

Að framkvæmdum loknum verða 38 herbergi í boði á Hótel Bergi, en eru nú 18.

Fjölskyldan sem stendur að Gistiveri ehf. hefur byggt upp hótelrekstur á landsbyggðinni undanfarin ár. Fyrirtækið rekur Hótel Egilesen í Stykkishólmi, en endurbætur við það hótel þykja hafa tekist einstaklega vel. Auk þess bætti fjölskyldan Hótel Búðum við í hótelsafnið ekki fyrir svo löngu síðan. Þau reka einnig þvottahúsið Sængurver í Stykkishólmi.