Nýjast á Local Suðurnes

Margt sögulegt í ársreikningum Reykjanesbæjar

Ársreikningur Reykjanesbæjar var lagður fram á fundi bæjarstjórnar í gær og fór til fyrri umræðu, að viðstöddum fjölda bæjarbúa. Bæjarfulltrúar sem ræddu ársreikninginn voru ánægðir með viðsnúninginn sem verið hefur í rekstri bæjarins, þó fjármagnsliðir, aðallega gjöld af skammtíma- og langtímaskuldum, séu að íþyngja rekstrinum. Tekist hefur að minnka skuldaviðmið A og B hluta Reykjanesbæjar um úr 232,67% í 228,23%.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sagði í greinargerð sem fylgdi ársreikningi að margt sögulegt kæmi fram í reikningnum og útkomu vera betri í mörgum töluliðum en verið hefur. Í ársreikningi kemur fram að íbúum Reykjanesbæjar fjölgaði um 2,07% á milli áranna 2014 og 2015, sem hefur skilað sér í auknum skatttekjum. Það helgast ekki síst af hærra atvinnustigi, hærri launum og hærri útsvarpsprósentu. Þá skilaði bæjarsjóður jákvæðu veltufé frá rekstri fyrir afskriftir og fjármagnliði um 1.042,3 milljónir króna.

Kjartan þakkaði starfsfólki fjármálasviðs fyrir vinnu við ársreikning 2014 en þetta er í fyrsta sinn sem ársreikningur Reykjanesbæjar er alfarið unninn af starfsmönnum bæjarins.

„Það er ánægjulegt að við skulum búa yfir svo öflugu starfsfólki sem raun ber vitni,“ sagði Kjartan Már í inngangi að ársreikningi 2014.

Áhugasamir geta skoðað ársreikning Reykjanesbæjar hér.