Nýjast á Local Suðurnes

Kjartan hættur hjá Kadeco – Stjórn endurskoðar starfsemi og stefnu félagsins

Kjartan Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, hefur sagt starfi sínu lausu og hefur hætt störfum fyrir félagið. Við starfi Kjartans tók Marta Jónsdóttir sem til þessa hefur starfað sem lögfræðingur félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kadeco, sem birt er á vef Viðskiptablaðsins, en þar kemur fram að framundan sé endurskoðun á starfsemi félagsins, sem stofnað var af stjórnvöldum árið 2006 og hefur Kjartan verið framkvæmdastjóri þess frá þeim tíma.

Umdeilt viðskiptasamband Kjartans Þórs og Sverris Sverrissonar rataði í fréttir á dögunum, en fyrirtæki í þeirra eigu sýslar meðal annars með eignir á starfssvæði Kadeco og var Kjartan meðal annars beðinn um útskýringar á því og síðar um skrifleg svör vegna þess af stjórn Kadeco. Stjórnin náði í kjölfarið ekki endurkjöri og var ný stjórn kjörin á aðalfundi sem haldinn var skömmu síðar.

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Georg Brynjarssyni, nýjum stjórnarformanni Kadeco, að mikill fjöldi verkefna séu í gangi hjá félaginu, en að starfsemi þess verði endurskoðuð á næstu vikum.

“Stjórn félagsins mun á næstu vikum endurskoða starfsemi og stefnu félagsins í samstarfi við hlutaðeigandi aðila á svæðinu. Þrátt fyrir minnkandi fasteignaumsvif er mikill fjöldi verkefna í gangi hjá félaginu og markmið endurskipulagningarinnar er að varðveita uppsafnaða þekkingu innan Kadeco og tryggja viðfangsefnum félagsins varanlegan farveg.” Segir í tilkynningunni.