Nýjast á Local Suðurnes

Kísilver í gjörgæslu bankastofnana – Reynsluboltar taka sæti í stjórn USi í Helguvík

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Heimildir Suðurnes.net herma að Arionbanki fylgist vel með fjárhagsstöðu kísilvers United Silicon í Helguvík, en vandræði með ofn fyrirtækisins og mengunarvarnarbúnað hafa kostað fyrirtækið háar fjárhæðir, mun meira en reiknað hafði verið með í áætlunum.

Þá herma heimildir Suðurnes.net einnig að óformlegar viðræður hafi farið fram varðandi yfirtöku annara aðila á rekstri United Silicon í Helguvík. Það fékkst þó ekki staðfest hjá Arionbanka, en fjölmiðlafulltrúi bankans, Haraldur Guðni Eiðsson, bar við bankaleynd í svari við fyrirspurn Suðurnes.net, og því væri ekki hægt að gefa upplýsingar um stöðu einstakra viðskiptavina bankans. Hann neitaði því þó alfarið að formlegar viðræður um yfirtöku annara aðila á rekstri fyrirtækisins hafi átt sér stað.

Þá þykja nýlegar breytingar í stjórn fyrirtækisins gefa vísbendingar um að fjárhagsleg staða fyrirtækisins sé ekki eins og best verður á kosið, en Sigrún Ragna Ólafsdóttir, fyrrum forstjóri VÍS og Jakob Bjarnason, starfsmaður LBI Eignarhaldsfélags tóku sæti í stjórn United Silicon í Helguvík í janúar. Samkvæmt heimildum Suðurnes.net mun það hafa verið gert að kröfu bankastofnana, í ljósi fjárhagslegrar stöðu fyrirtækisins.