Nýjast á Local Suðurnes

Hótuðu að hætta vinnu við kísilver í Helguvík – “Engar deilur,” segir framkvæmdastjóri

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Verktakafyrirtækið ÍAV, sem er aðalverktaki við byggingu kísilvers United Silicon í Helguvík hótaði að hætta vinnu við byggingu verksmiðjunnar í gær ef ekki yrði gengið frá greiðslum upp á hundruð milljóna króna vegna útistandandi reikninga. Heimildir Suðurnes.net herma að deilur fyrirtækjanna tveggja snúist um ógreidda reikninga sem forráðamenn United Silicon neita að greiða vegna deilna um tafir á verkinu, en upphaflega átti að hefja framleiðslu í byrjun árs.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net er heildarskuld United Silicon við ÍAV nokkur hundruð milljónir króna en að deilurnar í gær hafi snúist um tæplega 200 milljón króna reikninga, sem fyrrnefnda fyrirtækið neitar að greiða, vegna tafa.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net var málið komið í þann farveg að verktakar voru farnir að fjarlægja efni og tæki af vinnusvæðinu í Helguvík. DV.is greindi svo frá því í morgun að samkomulag hefði náðst um að ÍAV myndu klára fyrsta áfanga verksmiðjunnar, þannig að prufukeyrsla geti hafist í lok júní og framleiðsla gæti síðan hafist í lok júlí næstkomandi, eins og stefnt er að.

Magnús Garðarsson framkvæmdastjóri United Silicon segir engar deilur vera í gangi við verktaka lengur, málin hafi verið leyst í gær, deilurnar hafi snúist um að verkkaupi hafi ekki verið ánægður með hraðann á verkefninu.

“Thað eru engar deilur á milli okkar og neins af verktökum okkar. Já við vorum ósáttir við hrada verksins var ekki nógu góður, enn thað hefur verið leyst með góðu samkomulagi sem var gert í gær og ÍAV mun klára verkið 30. júní. Framleiðsla mun hefjast eftir prófanir á útbúnaði hafa verið kláraðar í lok júlí.” Sagði Magnús í svari við fyrirspurn Suðurnes.net, hann svaraði hinsvegar ekki spurningum um upphæðir, né deilurnar að öðru leiti.

Þá herma heimildir Suðurnes.net innan stjórnkerfis Reykjanesbæjar að United Silicon skuldi enn um þriðjung af greiðslum vegna lóðar- og gatnargerðargjalda vegna lóðarinnar í Helguvík, um 100 milljónir króna, þær neitar fyrirtækið að greiða vegna þess að Reykjaneshöfn hefur ekki staðið við ákvæði samnings um framkvæmdir við hafnargerð í Helguvík.

Magnús sagði hinsvegar í svari sínu til Suðurnes.net að gatnargerðargjöldin hafi verið að fullu greidd og segir að deilur við Reykjaneshöfn snúist eingöngu um lengingu hafnarkants í Helguvík, sem Reykjaneshöfn hafi átt að klára áður en framleiðsla hæfist í verksmiðjunni, það hafi dregist.

“Deilan með RNH snýst ekki um gatnagerðargjöld, sem hafa verið greitt að fullu. Thetta snýst um að RNH hefur ekki uppfylt skilyrði sín í samningum við okkur um að lengja hafnarkanntinn eins og lofað var að klára minst 6 mánuðum áður en verksmiðja okkar kláraðist.” Sagði Magnús.