Nýjast á Local Suðurnes

Hjá Höllu fyrsta Geopark fyrirtækið í flugstöðinni

Veitingastaðurinn Hjá Höllu er fyrstur aðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að hljóta nafnbótina Geopark fyrirtæki en Hjá Höllu og Reykjanes Geopark gerðu með sér samkomulag þess eðlis á dögunum. Þau Helga Dís Jakobsdóttir rekstrarstjóri Hjá Höllu í Leifsstöð og Daníel Einarsson forstöðumaður Reykjaness Geopark handsöluðu samstarfið á nýjum og glæsilegum stað Höllu í Leifstöð. Visit Reykjanes greinir frá þessu.

Með samstarfinu er meðal annars stuðlað að því að fyrirtæki á svæðinu noti merki Reykjanes UNESCO Global Geopark sem upprunamerkingu og styrki þannig við ferðaþjónustu og framleiðslu á Reykjanesskaga.

Tæplega 30 manns starfa á veitingastöðum Hjá Höllu í Grindavík og í Leifsstöð en fyrirtækið hefur vaxið og dafnað á þeim rúmu fimm árum sem það hefur verið starfandi hér á Reykjanesi. Hjá Höllu býður upp á eldbakaðar súrdeigspítsur, ferskan fisk frá Grindavík, fersk salöt sem og úrval rétta til að taka með sér í flug.  Búið er að koma fyrir stórum gaseldofni þar sem pítsurnar eru bakaðar við háan hita á aðeins 90 sekúndum.

Reykjanes Geopark vinnur að því að kveikja áhuga íbúa og gesta á Jörðinni, m.a. með því að vekja athygli á áhugaverðri jarðsögu, fræða og annast landið. Hugtakið Geopark er skilgreint af alþjóðlegum samtökum Geoparka sem nefnast Global Geoparks Network og starfa þau undir verndarvæng UNESCO.