Nýjast á Local Suðurnes

Heimavellir selja níu fjölbýlishús á Ásbrú

Eitt stærsta leigufélag landsins, Heimavellir, hefur ákveðið að selja níu fjölbýlishús á Ásbrú eða 154 af rúmlega 700 íbúðum fyrirtækisins á Ásbrú. Um er að ræða níu fjölbýlishús í svokölluðu 900 hverfi.

Íbúðirnar sem nú fara í söluferli eru að meðaltali 155 fermetrar að stærð en af íbúðunum 154 eru 32 stúdíóíbúðir sem eru um 40 fermetrar hver. Nánar má fræðast um söluferlið á íbúðunum hér.

Heimavellir seldu 210 íbúðir fyrir samtals 6,2 milljarða króna á árinu 2018, þar af var eignasala á fjórða ársfjórðungi 2,9 milljarðar króna. Fyrirtækið hefur hagnast vel á viðskiptum sínum á Ásbrú, en hagnaður fyrirtækisins árið 2016 var rúmur milljarður króna og fyrstu sex mánuði ársins 2017 hagnaðist fyrirtækið einnig um rúman milljarð króna.

Suðurnes.net hefur nokkrum sinnum fjallað um fyrirtækið frá því að það keypti rúmlega 700 íbúðir af leigufélagi í eigu Kadeco, Ásabyggð, á fermetraverði sem var á pari við verð á fermetra í blokkaríbúð í Síberíu. Þá vakti töluverða athygli að félagið hækkaði leigu á Ásbrú töluvert um leið og kaupin á Ásabyggð voru gengin í gegn.