Nýjast á Local Suðurnes

Heimavellir hækka leigu á Ásbrú – Eiga yfir 700 íbúðir á Suðurnesjum

Leigufélagið Heimavellir, sem nýlega keypti yfir 700 íbúðir á Suðurnesjum, hefur tilkynnt leigjendum sínum um hækkun á leiguverði nú um mánaðarmótin. Í tilkynningu til íbúa kom ekki fram hversu mikið leigan muni hækka, en í bréfi til íbúa er talað um hóflega hækkun, sem ákveðin hafi verið af fyrri eiganda áður en félagið festi kaup á íbúðunum.

Það var vefmiðillinn Stundin sem greindi fyrst frá málinu, en samkvæmt miðlinum eru íbúar á Ásbrú uggandi yfir stöðunni. Íbúar sem leigja af fyrirtækinu á Ásbrú og Suðurnes.net hefur rætt við segjast ekki vita hversu mikið leigan muni hækka, það verði að koma í ljós um mánaðarmótin. Þó hefur Suðurnes.net heimildir fyrir því að leiga hafi hækkað um 10-20 þúsund krónur á mánuði, eftir stærð íbúða, hjá þeim sem endurnýjað hafi leigusamninga sína nýlega.

Fyrirtækið á einnig íbúðir í Innri-Njarðvík, sem félagið keypti fyrr af árinu af leigufyrirtækinu Tjarnarverki, sem töluvert var rætt um í fréttum fyrir nokkrum misserum, vegna svipaðra mála. Íbúar sem leigja af fyrirtækinu í Njarðvík segjast ekki hafa fengið tilkynningu um hækkun á leigu.