Nýjast á Local Suðurnes

Hætta starfsemi í Helguvík – Búnaður og fasteignir auglýstar til sölu

Síldarvinnslan hf. hefur ákveðið að hætta starfsemi fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík. Verksmiðjan hefur verið starfrækt frá árinu 1997. Í tilkynningu frá Síldarvinnslunni kemur fram að móttöku hráefnis verði hætt að lokinni loðnuvertíð.

Áformin um lokun verksmiðjunnar voru kynnt starfsfólki þann 7. febrúar síðastliðinn auk þess sem þau voru kynnt fulltrúum Reykjanesbæjar og öðrum hlutaðeigandi. Lokun verksmiðjunnar hefur í för með sér uppsögn sex starfsmanna en að auki hefur hún áhrif á ýmis verktaka- og þjónustufyrirtæki.

Ástæða lokunarinnar er einfaldlega sú að rekstur verksmiðjunnar stendur ekki undir sér. Helsta ástæðan er síminnkandi hráefni til fiskimjölsverksmiðja, hækkandi kostnaður og auknar kröfur sem kalla á öflugar einingar og aukna hagræðingu. Uppistaða þess hráefnis sem borist hefur til verksmiðjunnar í Helguvík er loðna og hefur nýting verksmiðjunnar farið síminnkandi undanfarin ár. Óvissa um reksturinn hefur farið vaxandi vegna minnkandi loðnukvóta og mikillar óvissu um loðnuveiðar.

 

Hafist verður handa við að ganga frá verksmiðjunni og svæðinu í Helguvík í samráði við hlutaðeigandi yfirvöld. Unnið verður að því að koma búnaði og fasteignum í sölu og notkun. Fasteignir verksmiðjunnar í Helguvík geta nýst með ýmsum hætti og ekkert því til fyrirstöðu að þær gagnist samfélaginu vel, segir í tilkynningunni.