Nýjast á Local Suðurnes

Gistinóttum á hótelum fjölgar á milli ára á Suðurnesjum

Gistinætur á hótelum í júlí á landinu öllu voru 351.700 sem er 17% aukning miðað við júlí 2014. Gistinætur erlendra gesta voru 92% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 19% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um 3%. Á Suðurnesjum voru gistinætur í júlí tæplega 16.000 sem er aukning um 7% miðað við sama tíma í fyrra.

Aukningin yfir árið á Suðurnesjum er þó töluvert meiri eða 26% en árið 2013-14 voru gistinætur á hótelum á svæðinu 99.122 en 2014-15 eru gistinæturnar 124.884. Á tólf mánaða tímabili ágúst 2014 til júlí 2015 voru gistinætur á hótelum 2.556.990 sem er fjölgun um 17% miðað við sama tímabil ári fyrr, aukningin á Suðurnesjum er því vel yfir meðaltali. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Hugmyndin um Hótel í Keflavík galin

Í umfjöllun Local Suðurnes um endurbætur á Hótel Keflavík í júlí síðastliðnum kom fram í máli Steinþórs Jónssonar hótelstjóra að hugmyndin um byggingu hótels í Keflavík fyrir um 30 árum hafi verið talin galin:

„Við vorum í raun langt á undan okkar samtíð í þessum málum og vorum talin vera svolítið klikkuð að veðja á hótelrekstur á svæðinu í upphafi,“ sagði Steinþór við Local Suðurnes í júlí.

Hann bætti við, „mesta stökkið tókum við árið 1995 þegar við keyptum húsið við hliðina og stækkuðum hótelið um meira en helming, með tilkomu Canada 3000 sem var mjög jákvætt fyrir svæðið á sínum tíma og við höfum byggt þetta upp hægt og rólega síðan.“