Nýjast á Local Suðurnes

Fyrsta 5 stjörnu hótelið verður í Reykjanesbæ – Diamond Suites nær áfanganum með haustinu

Diamond Suites Steinþórs Jónssonar og fjölskyldu sem rekur Hótel Keflavík verður fyrsta 5 stjörnu hótel landsins en ekki hót­elið sem mun rísa við Bláa lónið og mun opna sem 5 stjörnu hótel árið 2017. Marriott Ed­iti­on hót­elið sem verður opnað við hlið Hörpu árið 2019 verður svo væntanlega það þriðja í röðinni.

Við fréttaflutning fjölmiðla af opnum Marriott Edition hótelsins var því haldið fram að það yrði fyrsta 5 stjörnu hótel landsins, það var svo leiðrétt skömmu síðar og hótelið við Bláa lónið nefnt til sögunnar sem það fyrsta.

Local Suðurnes fjallaði ítarlega um uppbyggingu Hótels Keflavíkur á dögunum og í þeirri umfjöllun kom fram að stefnt yrði að opnun Diamond Suites með haustinu og að hótelið yrði það fyrsta á landinu til að fá 5 stjörnu vottun.

diamond suites breytingar

Unnið hefur verið hörðum höndum að því að ná Diamond Suites í 5 stjörnur

300 milljón króna uppbygging

í umfjöllun Local Suðurnes um endurbæturnar á Hótel Keflavík og breytingarnar á húsnæðinu við að koma Diamond Suites í 5 stjörnurnar, kom meðal annars fram að heildarkostnaður við endurbætur og uppbyggingu Diamond Suites væri nú þegar komin vel yfir 300 milljónir króna.

Steinþór Jónsson hótelstjóri sagði í spalli við Local Suðurnes að um 40-50 milljónum króna hafi verið varið árlega síðastliðin fjögur ár í þennan áfanga þ.e. í breytingar á húsnæði Hótels Keflavíkur og uppbyggingu Diamond Suites, en lokahnykkurinn, sem tekinn var á þessu ári kostar vel á annað hundruð milljónir.

„Grunnurinn að þessu má segja að sé dugnaður fjölskyldunar og sérstaklega foreldra minna ásamt því að við höfum farið hægt í uppbygginguna,“sagði Steinþór í spjalli við Local Suðurnes.

„Við höfum byggt hótelið upp á 30 árum og við höfum aldrei tekið stór langtímalán fyrir þessum breytingum en notið góðrar aðstoðar hverju sinni frá viðskiptabönkum okkar.“ sagði Steinþór.

hotel kef - jon og barnabörnin

Það hafa mörg handtökin farið í hinar ýmsu breytingar á hótelinu í gegnum tíðina og hefur öll fjölskyldan lagt hönd á plóg. Hér er Jón William ásamt barnabörnunum Lilju Karen og Katrínu Helgu ásamt vinkonu.