Nýjast á Local Suðurnes

Frá A-Ö: Deilurnar harðna í Helguvík

Deilur verktakafyrirtækisins ÍAV og United Silicon í Helguvík fara væntanlega fyrir gerðardóm á næstunni, en þær snúast sem kunnugt er um reikninga vegna byggingar kísilversins, sem verktakafyrirtækið telur vera ógreidda.

Starfsmenn ÍAV lögðu niður störf við kísilver United Silicon um miðjan júlí vegna þessa og sagði Sigurður Ragnarsson forstjóri ÍAV, að fyrirtækið ætti um milljarð króna útistandandi hjá United Silicon og að hann grunaði að fyrirtækið ætti ekki fyrir framkvæmdinni.

„Allt í allt þá eigum við útistandandi hátt í þúsund milljónir hjá þeim. Mig grunar einfaldlega að þeir eigi ekki fyrir framkvæmdinni.“ Sagði Sigurður við Vísi.is.

Magnús Garðarsson framkvæmdastjóri United Silicon hér á landi og einn eigenda verksmiðjunnar, sagði við sama miðil að fyrirtæki sitt hafi staðið við allar greiðslur til ÍAV.

„Við riftum samningnum við ÍAV í gær þar sem þeir stóðu ekki við sinn hluta.“ Sagði Magnús um miðjan júlí.

Að sögn Magnúsar hefur hans fyrirtæki staðið við sinn hluta samkomulags aðila. United Silicon hafi greitt alla reikninga og að auki hafi ÍAV greiðsluábyrgð frá banka fyrirtækisins.

Óska mögulega aðstoðar lögreglu við að sækja byggingarefni

Forsvarsmenn ÍAV telja sig eiga búnað og byggingarefni á vinnusvæði United Silicon, sem þeir skyldu eftir þegar starfsmenn fyrirtækisins lögðu niður störf um miðjan júlí og telur forstjórinn mögulegt að leitað verði aðstoðar lögreglu við að sækja þann búnað.

„Þeir meinuðu okkur aðgang að vinnusvæðinu svo við gætum ekki tekið allar eigur okkur. Við höfum ekki enn fengið þann búnað og svo gæti farið að lögreglan verði fengin til að aðstoða okkur við að ná honum,“ segir Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, við DV þann 5. ágúst síðastliðinn.

Hóta verktökum atvinnumissi vinni þeir fyrir United Silicon

Verksmiðja United Silicon er tilbúin að stærstum hluta og stefnt er að því að framleiðsla hefjist í lok mánaðarins og enn eru iðnaðarmenn að störfum, að hluta til fyrrum undirverktakar ÍAV.

Nokkrir verktakar sem Suðurnes.net hefur rætt við segja að ÍAV hafi gefið í skyn að þeir fengju ekki vinnu hjá fyrirtækinu, sem er eitt stærsta verktakafyrirtæki landsins, ynnu þeir fyrir United Silicon við lokafrágang verksmiðjunnar.

„Já, það er rétt að mitt fyrirtæki fékk þau skilaboð að mögulega fengjum við ekki að vinna fyrir ÍAV í framtíðinni, ef við myndum vinna við verksmiðjuna. Það er ömurlegt að lenda á milli í svona deilum.“ Sagði forsvarsmaður fyrirtækis, sem ekki vildi láta nafn síns getið þar sem mikið væri undir hjá fyrirtækinu, í samtali við Suðurnes.net.

Forstjóri ÍAV, Sigurður Ragnarsson og framkvæmdarstjóri United Silicon, Magnús Garðarsson, svöruðu ekki fyrirspurnum Suðurnes.net vegna málsins.