Nýjast á Local Suðurnes

Engin úttekt farið fram á starfsemi Kadeco – Notast nær eingöngu við aðkeypta ráðgjöf

Lítið sem ekkert eftirlit er af hálfu ríkisins með starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco. Þá virðist lítill áhugi vera á fyrirtækinu innan Fjármálaráðuneytisins, en Kadeco heyrir undir það ráðuneyti. Kadeco hefur undanfarin 10 ár sýslað með eignir Íslenska ríkisins á Keflavíkurflugvelli, eignir sem Bandaríski herinn lét ríkinu í té við brottför sína árið 2007.

Ríkisendurskoðun annast endurskoðun ársreikninga fyrirtækisins, eins og allra annara fyrirtækja í ríkiseigu. Í svari stofnunarinnar við fyrirspurnum Suðurnes.net kemur fram að stofnunin hafi endurskoðað reikninga Þróunarfélagsins frá upphafi og hefur áritun stofnunarinnar verið hrein öll árin. Ríkisendurskoðun hefur einnig sent stjórn og eina hluthafa Kadeco endurskoðunarbréf öll árin, en þar er gert grein fyrir endurskoðuninni og niðurstöðum hennar. Þessi bréf hafa hingað til ekki verið birt opinberlega.

Ríkisendurskoðun annast einnig úttekir á stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins, þar á meðal úttektir er varða kaup á ráðgjöf og þjónustu fyrirtækja í eigu ríkisins. Engar úttektir hafa farið fram á starfsemi Kadeco af hálfu stofnunarinnar, en sérstaklega er tekið fram í ársskýrslum Kadeco að fyrirtækið nýti sér nær eingöngu aðkeypta þjónustu ráðgjafa við sölu á eignum í eigu ríkisins. Ekkert eftirlit hefur því verið með þessum hluta starfssemi Kadeco – Forsvarsmenn Kadeco svöruðu ekki fyrirspurnum Suðurnes.net um hvaða fyrirtæki séu þeirra stærstu ráðgjafar við sölu eigna, né hversu miklum fjármunum hefur verið varið í kaup á ráðgjöf. Þá hefur áður komið fram í umfjöllunum Suðurnes.net um Kadeco að þróunarfélagið hefur ekki nýtt sér þjónustu fasteignasala við sölu eigna.

Fjármálaráðherra aldrei talað við forsvarsmenn Kadeco

Framkvæmdastjóri Kadeco, Kjartan Eiríksson, hefur látið þá skoðun sína í ljós í fjölmiðlum að áhugi sé fyrir því að halda starfsemi Þróunarfélagsins áfram, en nær allar eignir félagsins hafa nú verið seldar og upphaflegum markmiðum með stofnun fyrirtækisins því náð.

Framkvæmdastjórinn er stórhuga, en hugmyndir hans ganga út á það að þróa óbyggt land áfram, þróa hugmyndir varðandi uppbyggingu flugvallarsvæðisins, auk þess að taka þátt í þróun hraðlestar á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Rétt er að taka fram að stjórnendur Kadeco hafa ekki séð ástæðu til að svara skriflegum fyrirspurnum Suðurnes.net um starfsemi félagsins, en stjórnarformaður félagsins, Sigurður Kári Kristjánsson, sagðist í stuttu spjalli við blaðamann ekki hafa skoðun á því hvort halda ætti starfsemi fyrirtækisins áfram, eða í hvaða mynd það yrði.

Kadeco hefur skilað um 17 milljarða króna tekjum í ríkissjóð í formi eignasölu, þar af hefur kostnaður við rekstur og framkvæmdir á vegum Kadeco verið um 7 milljarðar króna. Hagnaðurinn, sem hefur runnið óskiptur til ríkisjóðs, frá stofnun Kadeco hefur því verið um 10 milljarðar króna. Þrátt fyrir það virðist Benedikt Jóhannsson, fjármálaráðherra þó hafa takmarkaðan áhuga á starfsemi félagsins. Í nýlegum umræðum um Kadeco á Alþingi kom fram að hann hafi ekki verið í sambandi við forsvarsmenn félagsins frá því að hann tók við embættinu.

“Varðandi Kadeco get ég upplýst hv. þingmann um að það er búið að vera á dagskrá hjá mér býsna lengi að fara og heimsækja fyrirtækið. Það hefur bara af ýmsum ástæðum ekki fundist tími. Þetta hefur verið sveigjanlegur fundartími sem hefur færst til í dagskrá minni.” Sagði fjármálaráðherra í umræðum um Kadeco á Alþingi.

Í umræðunum kom einnig fram að hann hafi ekki myndað sér skoðun varðandi áframhaldandi starfsemi Þróunarfélagsins, þrátt fyrir vilja framkvæmdastjórans til að halda starfseminni áfram.