Nýjast á Local Suðurnes

Engin alvarleg frávik eru skráð hjá Nesbúeggjum síðustu sex ár

Aðbúnaður varphæna hjá Nesbúeggjum hefur batnað undanfarin ár og engin alvarleg frávik eru skráð hjá fyrirtækinu síðustu sex ár, þó alltaf séu gerðar einhverjar athugasemdir. Þetta kemur fram í umfjöllun RÚV um eggjaframleiðendur.

Helstu athugasemdirnar sem snúa að Nesbúeggjum, samkvæmt umfjölluninni, eru þær að það finnast búr með of mörgum hænum í, það þarf að bæta salmonellusýnatöku, auk athugasemda við aðstæður í eggjapökkunarstöð, rakamælingar og lýsingu.

Nesbúegg reka einnig eina lífræna eggjabúið hér á landi, að Miklholtshelli í Ölfusi. Matvælastofnun sinnir sínu reglubundna eftirliti þar, en Vottunarstofan Tún fylgist með því að reglum um lifræna ræktun sé fylgt. Þar mega ekki vera fleiri en 6 hænur á fermetra í lausagönguhúsunum og svo verða hænurnar að hafa aðgang að útisvæði upp á minnst fjóra fermetra á hverja hænu. Kastljós fékk afhenta síðustu skoðunarskýrslu Túns frá Miklholtshelli og kemur þar í ljós að engar athugasemdir eru gerðar við starfsemina. Sjá má útdrætti úr skýrslum MAST, eða skýrsluna í heild á vef RÚV.