Nýjast á Local Suðurnes

EFTA staðfestir arðsemi samnings Thorsil og Landsvirkjunar

Niðurstaða eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) staðfestir að raforkusamningur Landsvirkjunar og Thorsil feli ekki í sér ríkisaðstoð og að samningurinn sé gerður á markaðskjörum. Lagði Landsvirkjun fram gögn sem sýna að samningurinn sé arðsamur og skilmálar hans slíkir að einkarekið fyrirtæki myndi samþykkja hann við sambærilegar aðstæður.

Samningurinn var háður því skilyrði að ESA myndi staðfesta að samningurinn fæli ekki í sér ríkisaðstoð og kynntu þeir sér arðsemisútreikninga Landsvirkjunar og Thorsil sem lagðir voru til grundvallar samningunum, sem var undirritaður í maí síðastliðnum. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.

Kísilver Thorsil í Helguvík fær allt að 55 megavött af afli sem samsvarar 460 gígavattstundum af orku á ári. Ráðgert er að kísilverið verði tekið í notkun árið 2018 og mun það framleiða um 54.000 tonn af kísilmálmi á ári með um 130 starfsmenn.