Nýjast á Local Suðurnes

Bláa lónið og Isavia koma að nýjum viðskiptahraðli í ferðaþjónustu

Klak Innovit hefur í samstarfi við Isavia, Íslandsbanka, Vodafone og Bláa lónið ásamt Íslenska ferðaklasanum komið á fót nýjum viðskiptahraðli með sérstaka áherslu á ferðaþjónustu. Allt að tíu fyrirtæki verða valin til þátttöku í hraðalinn sem hefst 1. febrúar 2016. Í tíu vikur fá forsvarsmenn fyrirtækjanna þjálfun, fræðslu, ráðgjöf og leiðsögn frá hinum ýmsu sérfræðingum, fjárfestum og reyndum frumkvöðlum við að þróa viðskiptahugmyndir sínar áfram.

Hraðallinn er settur upp að erlendri fyrirmynd en sambærilegir viðskiptahraðlar eru starfandi um allan heim. Hérlendis eru þegar starfandi tveir aðrir hraðlar, Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Báðir hafa þeir gefið góða raun en samtals hafa 54 fyrirtæki tekið þátt í þeim frá árinu 2012.

Markmið Startup Tourism verkefnisins er að efla frumkvöðlastarf innan greinarinnar og ýta undir atvinnu- og verðmætasköpun á Íslandi. Verkefninu er ætlað að stuðla að faglegri undirstöðu hjá nýjum fyrirtækjum í ferðaþjónustu og stuðla að dreifingu ferðamanna í kringum landið, allt árið um kring. Verkefninu er ekki síður ætlað að miðla þeirri þekkingu sem orðið hefur til á undanförnum árum og áratugum og efna til umræðu um helstu áskoranir og tækifæri innan greinarinnar.

Hraðallinn sjálfur hefst 1. febrúar 2016 og fer fram í Reykjavík. Í nóvember og desember verða haldnar stuttar vinnusmiðjur á Egilsstöðum, Ísafirði, Akureyri, Hvolsvelli og í Reykjanesbæ. Opið er fyrir umsóknir bæði í vinnusmiðjur og viðskiptahraðalinn á vefsíðu verkefnisins, startuptourism.is.

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia sagði við undirkrift samningsins: Isavia er næststærsti aðilinn innan samtaka ferðaþjónustunnar og sér um rekstur gríðarlega mikilvægra samgönguinnviða. Til þess að Ísland geti vaxið sem ferðaþjónustuland og til þess að taka við þeim aukna straumi ferðamanna sem búist er við að leggi leið sína hingað til lands næstu árin er nauðsynlegt að leita nýrra leiða til að taka á móti þeim. Það er mjög mikilvægt að hlúa að því frumkvöðlastarfi sem er í gangi innan greinarinnar og auk þess er það lykilatriði til þess að geta tekið á móti auknum straumi, að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið.

Það er mjög ánægjulegt að taka þátt í þessum nýja hraðli, því til þess að ferðaþjónustan geti haldið áfram að vaxa, þurfum við öll sem störfum í ferðaþjónustu að taka þátt, stíga fram og stuðla að því að nýjar hugmyndir fái frjóan jarðveg til að vaxa úr, að innviðirnir eflist og að menntun og fagmennska aukist í faginu.