Nýjast á Local Suðurnes

Bjóða út akstur almenningsvagna innan Reykjanesbæjar

Ríkiskaup, fyrir hönd Reykjanesbæjar óska eftir tilboðum í akstur almenningsvagna innan Reykjanesbæjar næstu sex árin eða til ársins 2023. Um er að ræða einn innkaupahluta, sem samanstendur af annars vegar föstum akstri  og hins vegar pöntunarþjónustu.

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ kemur fram að óskað sé eftir tilboðum frá aðilum sem geta uppfyllt kröfur laga nr. 73/2001 um fólks- og farmflutninga ásamt reglugerð nr. 528/2002 um fólksflutninga á landi. Þá er tekið fram í tilkynningunni að væntanlegir samningsaðilar þurfi að lágmarki að hafa yfir að ráða fjórum rekstrarvögnum og einum aukavagni.

Þjónustan var boðin út í lok árs 2015 og buðu tvö fyrirtæki í verkið, Hópferðir Sævars Baldurssonar ehf. og núverandi þjónustuaðili SBK ehf. Tilboð Hópferða Sævars reyndist töluvert lægra, en vegna mistaka við gerð tilboðs fyrirtækisins var bjóðendum gert að skila inn nýjum verðum, þetta sætti SBK ehf. sig ekki við og kærði framkvæmd útboðsins. Því máli lauk með úrskurði Kærunefndar úboðsmála sem ógilti útboðið.