Nýjast á Local Suðurnes

Bílaleigur og bensínstöðvar vilja stór svæði í Reykjanesbæ

Reykjanesbær hefur hafið lóðaúthlutanir við Flugvelli, götu sem staðsett verður við iðnaðarsvæðið við Iðavelli. Mikil ásókn virðist vera í lóðirnar, en alls voru teknar fyrir 16 lóðaumsóknir við götuna á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, sem haldinn var þann 8. nóvember síðastliðinn.

Höldur ehf., sem meðal annars rekur Bílaleigu Akureyrar, sótti um 8 lóðir, Blue eignir sótti um þrjár og Brimborg hf. um eina. Þá sótti olíufyrirtækið N1 um þrjár lóðir við götuna. Auk þessara fyrirtækja sótti verktakafyrirtækið HUG verktakar um eina lóð.

Bílaleiga Akureyrar festi nýlega kaup á tæplega 17.000 fermetra svæði við Funatröð 1-5 á Ásbrú og sagði Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins starfsemina á Suðurnesjum vera heilmikla.

“Starfsemi okkar á Suðurnesjunum er heilmikil, við erum með á sumrin þarna rétt um 40 starfsmenn í beinni vinnu fyrir okkur, og á veturnar eru þetta um 20 -25 manns.

Að auki eigum við helming í fyrirtæki þar sem vinna um 38 manns á sumrin og að ég best veit um 14 í vetur, sem sér um að þrífa bílana fyrir okkur og tvær aðrar bílaleigur, þannig að starfsemi okkar þarna á Suðurnesjunum er mjög mikil.” Sagði Steingrímur.

Þá var tekin fyrir á fundinum ósk Alex Guesthouse ehf, um að lóð félagsins við Aðalgötu yrði minnkuð um 4.000 fermetra og að gerðir yrðu nýir leigusamningar fyrir Aðalgötu 60 og 62. Óskað var eftir því að Olíuverslun Íslands fengi þessa 4.000 fermetra til afnota, og var það samþykkt á fundi ráðsins.

Á fundinum var einnig tekin fyrir ósk Bílaleigu Kynnisferða um lóð í Helguvík, Fuglavík 43. Stjórn Reykjaneshafnar hafði áður samþykkt lóðarúthlutunina fyrir sitt leiti og samþykkti Umhverfis og skipulagsráð Reykjanesbæjar umsóknina einnig.