Nýjast á Local Suðurnes

Afturköllun starfsleyfis Thorsil – Fjárfestar vilja ekki skuldbinda sig fyrr en leyfi er í höfn

Fjármögnun kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík tefst vegna afturköllunar starfsleyfis fyrirtækisins til reksturs kísilvers í Helguvík og lýkur ekki fyrr en í fyrsta lagi í janúar á næsta ári. Til stóð að ljúka fjármögnun fyrirtækisins í október síðastliðnum.

Fjárfestar vilja, að sögn forstjóra fyrirtækisins, ekki skuldbinda sig verkefninu fyrr en leyfið sé í höfn. Umhverfisstofnun auglýsti á fimmtudag, tillögu að nýju starfsleyfi en frestur til að gera athugasemdir er til 2. janúar 2017. Fjölmargir hafa sýnt verkefninu áhuga undanfarin misseri, meðal annars lífeyrissjóðir og fjárfestarnir Andri Sveinsson og Birgir Már Ragnarson sem vilja fjárfesta 5 milljónum dollara eða 575 milljónum til verkefnisins.

„Við þurfum augljóslega að fara aftur í gegnum þetta ferli og leyfið auglýst aftur. Við gerum okkur vonir um að þegar að það liggur fyrir þá taki stuttan tíma að klára fjármögnunina,“ segir Hákon Björnsson, forstjóri Thorsil og hluthafi í verkefninu, í samtali við DV.

Starfsleyfi Thorsil var afturkallað vegna formagalla á auglýsingu frá Umhverfisstofnun, en auglýsingin var fjórum dögum of stutt í birtingu.

Stjórn Reykjaneshafnar samþykkti á fundi sínum 3. október síðastliðinn samkomulag við Thorsil ehf. um fyrirkomulag greiðslna á grundvelli Lóðar- og hafnarsamnings milli aðila. Í samkomulaginu felst að gjalddagi fyrstu greiðslu var í byrjun október 2016. Samkvæmt heimildum Suðurnes.net munu þau mál vera í skoðun.