Nýjast á Local Suðurnes

Aðeins einn lífeyrissjóður hefur staðfest þátttöku í Thorsil-verkefninu

Aðeins einn, af fjórum lífeyrissjóðum, hefur staðfest þátttöku í fjármögnun kísilverksmiðju Thorsil, sem til stendur að reisa í Helguvík. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins mun ekki taka þátt og óvissa ríkir um þátttöku Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Frjálsa lífeyrissjóðsins, en Almenni lífeyrissjóðurinn hefur gefið það út að hann ætli að fjárfesta í verkefninu. Þetta kemur fram í Fréttatímanum.

Lífeyrissjóðirnir fjórir höfðu gefið vilyrði fyrir um fjögurra milljarða fjárfestingu í verkefnið, áður en starfsleyfi félagsins var afturkallað í október síðastliðnum. Starfsleyfið hefur nú verið veitt að nýju.

Það er því ljóst að róa þarf á ný mið eftir fjárfestingu til verkefnisins, en eigendur Thorsil, bandarískur fjárfestir, Equity Asset Group, og íslenskir fjárfestar hafa þó skuldbundið sig fyrir því hlutafé sem upp á vantar og búið er að ganga frá lánasamningum við Arion banka, Íslandsbanka og einn erlendan banka.