Nýjast á Local Suðurnes

Víðir Garði með flottan sigur á Vængjum Júpiters

Víðismenn halda áfram að gera það gott í þriðju deildinni í knattspyrnu, þeir tóku á móti Vængjum Júpiters á Nesfisk-vellinum í Garði í gær og höfðu 4-2 sigur.

Það voru Vængirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 15. mínútu, úr vítaspyrnu. Víðismenn náðu þó að jafna leikinn fyrir leikhlé, en þar var að verki Pawel Grudzinski, rétt áður en flautað var til hálfleiks.

Vængir tóku aftur forystuna um miðjan síðari  hálfleik, en Víðismenn létu það ekki slá sig út af laginu og settu í fluggírinn. Róbert Örn Ólafsson svaraði með tveimur mörkum á 70. og 75. mínútu og Víðismenn komnir 3-2 yfir. Þeir létu þó ekki þar við sitja og bætti Helgi Þór Jónsson fjórða markinu við á 85. mínútu.

Víðismenn eru því á toppnum ásamt Tindasóli með 24 stig, átta stigum fyrir ofan Vængi Júpiters, sem eru í þriðja sæti deildarinnar.