Nýjast á Local Suðurnes

Vel heppnað kynningarkvöld UMFN – Landsliðsbúningur Loga seldist á hálfa milljón

Mynd: UMFN

Kynningarkvöld Körfuknattleiksdeildar UMFN fór fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík síðastliðið Laugardagskvöld. Um var að ræða fyrsta kynningarkvöldið sem deildin hefur staðið að og í tilkynningu á vefsíðu UMFN vilja stjórn og leikmenn þakka kærlega öllum þeim sem sóttu kvöldið, en það er mál manna að einkar vel hafi tekist til í þessari frumraun.

Á kynningarkvöldinu voru boðnir upp fjórir hlutir og seldist landsliðsbúningur sem Logi Gunnarsson lék í á EuroBasket í Helsinki á 500.000 krónur. Logi er landsleikjahæsti leikmaðurinn sem enn er virkur og sá fjórði landsleikjahæsti í sögunni.

Tímabilið hefst svo á miðvikudag þegar kvennalið Njarðvíkur fær Skallagrím í heimsókn í Ljónagryfjuna kl. 19:15. Fyrir leik geta þeir sem vilja skráð sig í Grænu Ljónin stuðningsmannaklúbb deildarinnar og sala ársmiða hefst svo í næstu viku. Karlalið Njarðvíkur fer svo af stað á fimmtudag þegar liðið mætir Íslands- og bikarmeisturum KR á útivelli.