Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjaliðin hefja leik í kvöld – Spáð misjöfnu gengi í Inkasso-deildinni

Grindavík og Keflavík hefja leik í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í kvöld, Grindvíkingar leika á heimavelli gegn Haukum og Keflvíkingar halda í Kópavoginn þar sem þeir leika gegn HK í Kórnum. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19.15.

Grindvíkingum er spáð 6. sæti í deildinni af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í Inkasso-deildinni, en þeir eru nú að fara inn í sitt fjórða tímabil í röð í 1. deildinni.

Óli Stefán Flóventsson tók við Grindvíkingum síðastliðið haust af Tommy Nielsen. Óli Stefán hafði áður verið aðstoðarþjálfari liðsins í fyrra. Óli er öllum hnútum kunnugur í Grindavík eftir að hafa spilað með liðinu stærstan hluta af sínum ferli.

Keflvíkingum er aftur á móti spáð góðu gengi í deildinni í ár, en þeir féllu sem kunnugt er úr Pepsí-deildinni á síðasta tímabili. Kjarninn í hópnum er ekki ósvipaður og í fyrra en heimamenn liðsins ákváðu allir að taka slaginn áfram í 1. deildinni auk þess sem Jónas Guðni Sævarsson kom aftur á heimaslóðir. Þá er reynslubolti við stjórnvölinn, en Þorvaldur Örlygsson var ráðinn þjálfari eftir að liðið féll.