Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjafyrirtæki tekur áskorun landsliðsþjálfara – Kostar umfjöllun um kvennaboltann

Hugbúnaðarfyrirtækið AZAZO sem staðsett er á Ásbrú og stærsta knattspyrnuvefsíða landsins, Fótbolti.net hafa gert með sér samstarfssamning sem á að tryggja aukna umfjöllun um íslenska kvennaknattspyrnu. Hluti af samstarfinu er stofnum AZAZO Draumaliðsdeildar kvenna sem verður á Fótbolta.net í allt sumar.

Í vikunni birti Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona í fótbolta og leikmaður Breiðablik, pistil á Facebook og á Fótbolta.net sem síðan var endurbirtur í Fréttatímanum undir fyrirsögninni Hún á Hyundai, hann á Porsche. Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna fylgdi fréttinni eftir með pistli þar sem hann hvetur íslenski fyrirtæki til að kosta umfjöllun um kvenna:

“Það væri framfara skref fyrir íslensk samfélag ef að fjársterku fyrirtækin í landinu myndu skoða markaðstækifærin sem fylgja því að standa á bak við kvennaknattspyrnu og veita þar með fjölmiðlum tækifæri á því að fjalla um íþróttina, búa til skemmtilega umgjörð, leyfa stjörnunum að skína svo að börn landsins eigi möguleika á að sjá fyrirmyndir af báðum kynjum!”

AZAZO ætlar að taka þessari áskorun Freys og hefur skrifað undir samning um að styrkja stofnun draumaliðsdeildar kvenna og kosta umfjöllun um kvennaknattspyrnu á Fótbolta.net.

“Forritarar hjá AZAZO hafa komið að smíði Draumaliðsdeildarinnar og það lá því beint við að opna Draumaliðsdeild kvenna. Til viðbótar ætlum við að kosta umfjöllun um kvennafótboltann á Fótbolta.net svo hann verði enn sýnilegri,” segir Brynja Guðmundsdóttir forstjóri AZAZO og fyrrverandi fótboltakona með Haukum, í tilefni af samstarfinu við fotbolti.net.

AZAZO er íslenskt hugbúnaðar- og þekkingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í stjórnun og varðveislu upplýsinga og gagna. Vörslusetur fyrirtækisins sérhæfir sig í meðhöndlun og varðveislu gagna í sérhæfðu 4500 m2 húsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hjá Azazo starfa um 50 manns í sex löndum. Forstjóri er Brynja Guðmundsdóttir, hún er jafnframt stofnandi fyrirtækisins.